Ný heimasíða Liðsmanna Jerico

Kæri lesandi.

Við höfum opnað nýja heimasíðu.

www.jerico.is

Published in: on October 21, 2009 at 9:48 am  Leave a Comment  

Minningarstund vegna sjálfsvíga

858196_59208350.jpg

Í tilefni alþjóðlegs dags sjálfsvígsforvarna verður haldin kyrrðarstund í Dómkirkjunni fimmtudaginn 10. september kl. 20:00 – 20:30, á vegum Þjóðkirkjunnar, Landlæknisembættisins, Geðsviðs LSH, Geðhjálpar og fleiri aðila.

Að lokinni athöfn í kirkjunni verður gengið niður að Tjörn þar sem kertum verður fleytt til minningar um þá er fallið hafa frá fyrir eigin hendi.

Dagskrá kyrrðarstundarinnar verður á þessa leið:
Guðrún Karlsdóttur þýðandi og aðstandandi segir frá reynslu sinni.
sr. Hjálmar Jónsson flytur hugvekju og bæn.
Magga Stína (Fabúla) flytur sálminn Ákall við eigið lag, textinn eftir föður hennar séra Sigurð Pálsson.
Sigurður H. Ingimarsson flytur lag sem er tileinkað Geðhjálp
 

Þess má geta að fræðslusvið Biskupsstofu gaf út fyrr á þessu ári heftið Ástvinamissir vegna sjálfsvígs – handbók til sjálfshjálpar fyrir aðstandendur og fæst það í Kirkjuhúsinu.

 

Published in: on September 9, 2009 at 5:44 pm  Leave a Comment  

Glæsileg umfjöllun í Fréttablaðinu í dag bls. 16

Vildi óska að ég gæti sett hana hér inn alla saman.

Jakob Einar er komin í mark og búinn að hjóla tæplega 1.400 km á sjö dögum. Um leið og hann hjólaði sig inn í hjörtu fólks allt í kring um landið vakti hann athygli á okkar málaflokki einelti.

Það verður seint hægt að fullþakka honum þetta stóra og mikla starf sem vannst.

Published in: on September 9, 2009 at 4:38 pm  Leave a Comment  

Síðdegisútvarpið Rás 2

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item296637/
Fyrst birt: 02.09.2009 16:07
Síðast uppfært: 02.09.2009 16:11

 

Hjólar hringveginn gegn einelti

Hjólar hringveginn gegn einelti

Jakob Einar Jakobsson hjólar gegn einelti.

Jakob Einar Jakobsson, fyrrum landsliðsmaður í skíðagöngu, hjólar nú hringveginn til styrktar samtökunum Liðsmenn Jerico sem berjast gegn einelti. Hann hefur nú hjólað í þrjá daga. Hann hóf ferðina í Reykjavík og var á Mývatni í dag. Á morgun ætlar hann að koma til Egilsstaða ef veður leyfir. Jakob Einar hefur til þessa hjólað um 190 kílómetra á dag. Hann áætlar að ferðin taki níu daga og reiknar með að hjóla inn í Reykjavík eftir rétta viku. Þeir sem vilja leggja þessu málefni lið geta lagt inn á reikning númer: 0323-13-168221. KT:190783-4059.

 

frettir@ruv.is

Published in: on September 3, 2009 at 6:11 pm  Leave a Comment  

Þelamerkurskóli í Hörgárbyggð þroski, menntun og samkennd.

http://thelamork.is/greinar/frettir/hlaupid_gegn_einelti/

Hlaupið gegn einelti

02.09.2009 16:26 – 67 lestrar

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að hér í Þelamerkurskóla höfum við ákveðið að taka Jokob Einar hjólagarpa okkur til fyrirmyndar. Það ætlum við að gera með því að hlaupa gegn einelti í  Norræna skólahlaupinu sem verður hjá okkur í lok september.

Þeð fer vel á því að nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla leggi sitt af mörkum gegn einelti. Í fyrsta lagi vinnum við að því að innleiða áætlun Olweusar gegn einelti, í öðru lagi leggjum við áherslu á útivist og hreyfingu í skólastarfinu og í þriðja lagi er samkennd eitt af einkennisorðum skólans.

Fyrirkomulag hlaupsins og söfnunar áheita á nemendur verður með svipuðu fyrirkomulagi og þegar við tókum þátt í Unicef-hreyfingunni á sínum tíma. En í þetta sinn eru það samtökin Liðsmenn Jeríkó sem njóta áheitanna sem nemendur safna.

Published in: on September 3, 2009 at 5:51 pm  Comments (1)  

Upplýsandi fréttafluttningur, stútfullur af fróðleik og áhuga.

http://bb.is/Pages/119?NewsID=136833

 

bb.is | 31.08.2009 | 16:47Hjólar gegn einelti

Önfirski skíðamaðurinn Jakob Einar Jakobsson lagði upp í hringferð um landið í morgun. Ferðin er farin til að vekja athygli á því hversu alvarlegt vandamál einelti er og um leið athygli á starfi samtakanna Jerico. Markmið Liðsmanna Jerico er að vekja athygli á afleiðingum eineltis ásamt því að vera athvarf fyrir þolendur og aðstandendur þeirra. Samtökin eiga að vera vettvangur ráðgjafar fyrir þolendur eineltis og aðstandendur þeirra og vinna að fræðslu og miðla þekkingu um málefni tengd einelti. Nafn samtakanna Liðsmenn Jerico er tilkomið vegna þess að Jerico var notendanafn Lárusar Stefáns á netinu, en hann var ungur maður sem tók líf sitt sumarið 2008 eftir að hafa verið lagður í einelti um árabil. Foreldrar hans Þráinn Lárusson og Ingibjörg Helga Baldursdóttir eru stofnendur samtakanna.

„Liðsmenn Jerico tengjast fjölskyldu kærustunnar minnar og ég hef fylgst með frá stofnun og heillaðist strax af vilja foreldranna og ákvörðun þeirra um að fráfall sonarins skyldi aldrei vera neitt feimnismál eins og Þráinn hefur sagt opinberlega, heldur skyldu þau í hans nafni berjast á móti einelti í allri sinni mynd og á öllum vígstöðum. Þau tóku eineltið strax mjög alvarlega þegar það komst upp, ég nefni sem dæmi að Þráinn menntaði sig til kennara og er formaður fræðslunefndar Austurlands og situr í stjórn skólaskrifstofu Austurlands. Þetta gerði hann til að geta haft áhrif og hjálpað fleirum en bara stráknum sínum heima fyrir.“

Áætlað er að ferðalag Jakobs taki um níu til tíu daga en hann ætlar að hjóla 1374 km. Með í för er einn rómaðasti einkakokkur miðborgarinnar í upphækkuðum jeppa með fellihýsi en það er smurbrauðsjómfrúin Jakob, pabbi hjólreiðagarpsins.

Jakob Einar er einn af fremstu íþróttamönnum Vestfirðinga undanfarin ár. Hann var í landsliðinu á skíðum í sex ár og er átjánfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu á árunum 2000-2006. Keppti á HM í Þýskalandi 2005 en hann var sama ár kjörinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Hann hefur keppt í VASA göngunni í Svíþjóð og Birkebeinergöngunni í Noregi.

Söfnunarreikningurinn til styrktar liðsmönnum Jerico er: 0323-13-168221. Kennitala: 190783-4059. Nánari upplýsingar um samtökin má finna á vef þeirra á slóðinni www.jerico.is. Fólk getur gerst „aðdáendur“ síðunnar „Hjólað gegn einelti“ á samskiptasíðunni facebook og fylgst þar með hvernig ferðinni miðar.

Á mbl.is má sjá sjónvarpsviðtal við Jakob Einar um ferðalagið.

thelma@bb.is

Published in: on September 1, 2009 at 11:14 am  Leave a Comment  

Hjólað gegn einelti

Komið sæl.

Mig langar til að láta ykkur vita af ungum manni sem hefur nú hjólað stoltur í eineltið.

Jakob Einar Jakobsson hjólaði af stað hringinn í kringum landið í dag 31. ágúst 2009. Fyrsti áfangastaður Jakobs Einars er Staðarskáli. Ferðalagið áætlar hann að taki 9 daga.

Þóra Kristín frá Morgunblaðinu kom og tók viðtal við hann áður en hann lagði af stað, viðtalið verður vonandi komið inn á vefsjónvarpið á www.mbl.is  seinna í dag.

Hann hefur lengi gengið með þann draum að hjóla hringinn í kringum landið. Í vor ákvað hann að láta verða af þessu, ásamt Sævari vini sínum. En í sumar hefur verið mikil óvissa varðandi þennan hjólatúr þar sem Sævar hefur verið meiddur af og til, og þurfti í síðustu viku að blása túrinn af.

Jakob var að vonum vonsvikinn, en eftir miklar pælingar ákvað hann að drífa sig einsamall, en þó með fylgdarbíl. Þetta ákvað hann 26. ágúst. Hann fékk ábendingar um að það væri sniðugt að gera þetta í nafni samtaka og datt Liðsmenn Jerico strax í hug.

Feðgarnir fengu konunglegar móttökur í Mývatnssveit í Selinu Hótel Mývatnssveit hjá Ragnari Kristjánssyni og fjölskyldu.

Feðganna bíða fleiri góðar móttökur þar má nefna á Hallormsstað, þar taka Þráinn, þurý og Kristján Stefán á móti þeim með veislu og gistingu.

Á Hornafirði bjóða heiðurshjónin og Liðsmennirnir Kristín Óladóttir og Ingólfur Einarsson eigendur Kaffihornsins þeim feðgum til veislu.

Þessi hugmynd Jakobs Einars er hreinasta snilld. Krafturinn og dugnaðurinn í honum snertir mig djúpt.
Hann bara getur ekki verið á betri tíma með áminningu um vakningu í eineltismálum, um alvarlegar afleiðingar eineltis og Liðsmenn Jerico en núna.

Jakob Einar og hans fjölskylda er að opna umræðuna á jákvæðan og hvetjandi hátt.

Nú hjálpar þetta vonandi þeim þolendum og aðstandendum sem eru að berjast við skömmina, vegna þess að það hljóti að vera eitthvað að þeim eða þeirra barni fyrst það er lagt í einelti.

Þetta eru viðhorfin sem þolendur hafa þurft að fela sig fyrir.

 

Er það barnið þitt sem er svo “heppið” að geta læst sig inni á klósetti til að gráta í friði.
Er það móðir þín, faðir, systir, bróðir eða besti vinur sem finnst hún/hann vera í helvíti og eru föst á eymdarstað í lífinu þar sem lífsvilji þeirra og gleði hefur verið soginn úr þeim markvisst og sá sem hefur lyklavöldin er kvalari þeirra.

Það er engin skömm að eiga barn eða annan aðstandanda sem verður fyrir eineltisofbeldi en það er sárara en orð fá lýst.
Skömmin liggur hjá gerendunum. Þeir eru illa upplýstir.

Nú hjólar Jakob Einar hraustur og hress og hjálpar okkur að snúa við blaðinu.
Einelti er ekki einkamál gerandans og þolandans – Það kemur okkur öllum við – Við berum öll ábyrgð.

Þúsund þakkir til hans og ykkar.

Gott að þið vitið af Facebook-síðunni hans Hjólað gegn einelti, þar eru komnir um 1.830 vinir.

 

Brottfarar- og áfangastaður Km Busl / möl Helstu kennileiti leiðar

Dagur 1.
Reykjavík – Staðarskáli 163,00 163,00 / 0,00 Hvalfjarðargöng, Holtavörðuheiði

Dagur 2.
Staðarskáli – Akureyri 225,00 225,00 / 0,00 Vatnsskarð, Öxnadalsheiði

Dagur 3.

Akureyri – Mývatn 90,00

Dagur 4.

Mývatn – Egilsstaðir 174,00

Dagur 5.

Egilsstaðir – Djúpivogur 156,00 148,00 / 8,00 Fagridalur, Fáskrúðsfjarðargöng

Dagur 6.

Djúpivogur – Höfn 104,00 100,00 / 4,00

Dagur 7.

Höfn í Hornafirði – Skaftafell 136,00 136,00 / 0,00

Dagur 8.

Skaftafell – Vík í Mýrdal 140,00 136,00 / 4,00 Skeiðarársandur

Dagur 9.

Vík í Mýrdal – Reykjavík 186,00 186,00 / 0,00 Hellisheiði

SAMTALS: 1374 km

Published in: on August 31, 2009 at 9:09 am  Comments (1)  

Í minningu fallinna eineltisþolenda.

 

Ég nærist á sársauka annarra. Eftir því sem þau finna meira til þá líður mér betur.

Ég er lúmskari en nokkur trúir og veit hvernig ég næ bestum árangri hvar sem er, hvenær sem er, hvernig ég næri mig best.

Ég þarf alltaf meira og meira af sársauka í kring um mig, til að fylla mig af þessari dásamlegu tilfinningu sem fer um mig þegar ég sé sársaukann og heyri sársaukann í fórnarlömbunum mínum.

Ég veit ég á ekki að gera þetta en þetta gefur mér ótrúlegt vald yfir vinum mínum og fórnarlömbum.

Það er dásamlegt að kúga og ógna og þó svo að ég sé staðinn að verki þá skiptir það ekki svo miklu máli.

Ég þarf kannski að biðja fyrirgefningar og hlusta á tiltal en um leið og ég biðst fyrirgefningar sendi ég fórnarlambinu mínu svipinn sem það þekkir svo vel og brýt það enn betur niður svo fer ég út og held áfram.

Lífið er dásamlegt og stútfullt af fórnarlömbum.

Ég er eineltisgerandi, nærist á ofbeldi.

 

 

Í dag er nákvæmlega 1 ár síðan sonur minn dó, síðan baráttan hófst í nafni Jerico.

Mig langar til að segja ykkur frá því hvernig nafnið á Samtökum foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico er tilkomið.

Jerico var notendanafn Lárusar sonar míns á netinu.

Það síðasta sem hann hafði fyrir augunum áður en hann tók líf sitt þann 21. júní síðasta sumar var uppi á skjánum á tölvunni hans undir notandanafni hans, Jerico.

Ljót og niðurlægjandi svör fólks við spurningu sem hann setti inn á spjallsíðu.

Það síðasta sem við vitum er að hann setti inn ósk klukkan tæplega tvö um nóttina þar sem hann bað fólk að hætta að kommenta á stafsetninguna sína en gefa sér frekar ráð.

Svör fólksins til Jerico voru það sem blasti við mér daginn eftir atburðinn. Svör sem ég gleymi aldrei, tilfinning sem ég gleymi aldrei. Þetta var það síðasta sem Lárus sat við og las áður en hann tók líf sitt. Þetta hefur sært okkur meira en orð fá lýst.

Kaldhæðnin gat ekki verið meiri. Drengur sem þurfti að þola ofbeldi í sinni ljótu mynd í skóla, ofbeldi sem braut hans sjálfsmynd í mola og fylgdi honum eins og svartur skuggi allt hans líf og felldi hann að lokum.

Það sem gerðist svo í kjölfarið gaf mér styrk og það var að á þessari sömu spjallsíðu var opnuð síða þar sem fólk gat heiðrað og minnst Jerico.

Þangað inn fór ég oft á dag næstu daga og vikur til að sækja styrk því þar skrifaði fjöldinn allur af fólki þá mestu fegurð sem ég þurfti á að halda.

Í hans nafni starfa Liðsmenn Jerico, Samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.

Fyrir alla þá sem þurfa að þjást vegna eineltisofbeldis og skilningsleysis.  

Með þær skelfilegu afleiðingar sem  ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir, hversu mikil heilsufarsleg áhrif það hefur í för með sér fyrir þá allt þeirra líf, eða fyrir tengslum eineltis og sjálfsvíga.

Hvernig afleiðingarnar leggjast á alla fjölskylduna.

Umræðan um afleiðingar eineltisofbeldis hefur opnast, fræðsla og upplýsingar hafa aukist – Fordómar eru á undanhaldi.

Netsamfélagið er órofa hluti af samfélaginu, við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að það er veruleiki Íslands og það er líka vegna þess sem við erum í þessari baráttu núna.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Fólk er farið að átta sig á að þolendur eineltisofbeldis eru ekki aumingjar heldur er verið að gera þá að aumingjum.

Kynnt var hugmynd 16.06.09  að sérsveit/fagteymi á fundi hjá menntamálaráðuneyti  með ráðuneytum, stofnunum, samtökum og félögum allsstaðar að úr íslensku samfélagi.

Fagteymi sem verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málum enda sérhvert mál sérstakt og útheimtir þar af leiðandi mismunandi útfærslur.   (Sjá nánar inni á jerico.is)

Ég vil sjá að í allri uppeldismenntun sé eineltisfræðsla í grunnnámi skylduáfangi.

Ég vil sjá að Barnaverndarnefndir um allt land fái verkfæri til að vinna með gerendur í eineltismálum og fjölskyldur þeirra, að Barnaverndarnefndir fái tilkynningar um gerendur og fjölskyldur þeirra til að vinna með.

Gerendurnir eru vandamálið og það þarf að hjálpa þeim að vinna á sínum vanda.

Þetta tel ég vera forvörn.

Fullorðnir þolendur eineltisofbeldis eiga sér engan málsvara. Það er enginn sem tekur að sér einstakt mál sem berst til þeirra stofnana sem fólki er þó bent á að snúa sér með úrlausn.

Það batnar ekki þegar þolandi telur í sig kjark til að tilkynna einelti sem hann verður fyrir og fær það svart á hvítu fyrir framan sig að úrlausnaraðilinn sem hann er sendur til kemur til með að taka líka að sér að verja gerandann.

Hvert er réttlætið þar? Hvar eru mannréttindin þá?

Er hægt að niðurlægja fólk eitthvað frekar? Já með því að sannfæra þolendurna um að þeir eigi ekki möguleika á að vinna málið til þess sé sönnunarbirgði þeirra of mikil.

Skiptu frekar um vinnustað eða láttu þetta yfir þig ganga.

Ég bara skil ekki hvernig fólk getur þagað yfir einelti sem það verður vitni að, verður fyrir sjálft eða börnin þeirra. Ég bara skil það ekki hvernig fólk getur haft það á samviskunni.

Talið, látið vita.

Einelti drepur.

Published in: on June 21, 2009 at 12:11 pm  Comments (1)  

Sérsveitarhugmyndin

Næsti fundur okkar um „Sérsveitarhugmyndina í eineltismálum“ með stjórnendum ráðuneyta og stofnana verður haldinn  þriðjudaginn 16. Júní 2009 í menntamálaráðuneytinu.

Tryggja þarf að hugmyndin sé unnin á landsvísu þannig að hún virki úti á landsbyggðinni jafnt sem á höfuðborgarsvæðinu.

Eineltismál eru að grassera án þess að utanum þau náist og mörg skilja eftir sig eyðileggingu til lífstíðar. Dæmi eru um að sagt sé frá því að skóli hafi jafnvel hunsað að horfast í augu við alvarlegt eineltismál eða telji að unnið hafi verið í því með viðunandi hætti enda þótt  aðstandendur þolanda fullyrði að málið hafi ekki fengið viðhlítandi afgreiðslu. Það er í svona tilvikum sem fólk fyllist vanmætti og spurt er hvort ekki sé neitt við ráðið?

Sérsveitarhugmynd til lausnar
Það er með einföldum hætti hægt að búa til kerfi í formi teymis sem hægt væri að virkja samstundis ef skóli hefur ekki geta leitt einstakt eineltismál til lykta. Hér er mikilvægt að taka fram að með þessari hugmynd er ekki verið að taka ábyrgðina af skólastjórnendum sem vissulega eru ávallt þeir fyrstu sem fá málið á borðið til sín.  Grunnhugmyndin er sú að fagteymi sem þetta verði einungis virkjað sé það mat foreldra þolanda að skólinn hafi ekki ráðið við að stöðva eineltið þannig að þolandanum finnst hann öruggur í skólanum.  Sé teymið kallað út að beiðni foreldra þolanda mun það setja sig í samband við viðkomandi skóla, óska eftir samvinnu við skólastjórnendur og fagaðila hans við að leyða málið til eins viðunandi lausnar og hugsast getur.

Í sumum tilvikum gæti nægt að teymið veiti skólayfirvöldum og fagfólki ráðgjöf og leiðbeiningar um hvernig best sé að bregðast við og hvaða skref sé nauðsynlegt að taka í átt til lausnar. Teymið mun þó ekki  sleppa  hendi af þolandanum fyrr en staðfest hefur verið af honum og foreldrum hans að búið sé að stöðva eineltið, ræða við alla aðila málsins og að gera allt sem hægt er að gera til að tryggja öryggi barnsins í skólanum.

Vegna þess að ákvarðavald skólastjórnenda er mikið og að grunnskólar hafa almennt séð mikið sjálfsstæði getur þessi hugmynd ekki orðið að veruleika nema með milligöngu stjórnvalda. Sé skólastjórnendum ekki gert af yfirmönnum sínum að vera í samvinnu við fagteymið óski foreldri eftir liðsinni þess er ekki hægt að tryggja að það hafi aðgang á vettvang. Samvinna fagteymis og viðkomandi skóla skiptir öllu máli ef takast á að uppræta eineltismálið sem um ræðir.

Börn er börn til 18 ára aldurs
Þessi sama hugmynd hefur jafn mikið gildi í framhaldsskólum eins og grunnskólum.  Allt þar til 18 ára aldri er náð ber okkur sem samfélag,  foreldrar og skóli að tryggja einstaklingum öruggt umhverfi þar sem þau geta látið sér líða vel, verið afslöppuð og örugg. Þessi hugmynd hefur einnig verið mátuð inn í heim fullorðinna. Eins og alkunna er koma upp tilvik um einelti á vinnustöðum þar á meðal kynferðislegt áreiti.  Enda þótt Vinnueftirlitið og stéttarfélög hafa reynt að leiðbeina þolendum og atvinnurekendum í málum sem þessum geta hvorugir þessara kerfa unnið í málinu ef svo má að orði komast. Ástæðan er einfaldlega sú að þeim ber að gæta hagsmuna meints geranda allt eins og meints þolanda, m.o.ö. sitja beggja vegna borðs. 

Published in: Uncategorized on June 11, 2009 at 5:32 pm  Leave a Comment  

Frumkvöðlastarf forstöðumanna ITH

Hrósið fer til Jóhönnu Margrétar Fleckenstein, forstöðumanns Hraunsins, félagsmiðstöðvarinnar í Viðistaðaskóla og Ernu Sóleyjar Stefánsdóttur, forstöðumanns Versins, félagsmiðstöðvarinnar í Hvaleyrarskóla.

Jóhanna og Erna Sóley hafa verið að vinna frumkvöðlastarf inni í þeirra félagsmiðstöðvum á sviði eineltisfræðslu og vinnu.

Þetta starf hefur líkað vel og verið mörgum ungmennum til hjálpar.

Þær stöllur bókuðu fyrirlestur á dagskrá símenntunar um einelti og afleiðingar þess og fengu tveggja tíma fyrirlestur og umræðufund   fyrir starfsfólk ÍTH.

Olga Eir Þórarinsdóttir var á þeim fyrirlestri og bókaði síðan Kompetohópinn sinn sem sér um jafningjafræðsluna og hafa þau nú klárað sinn fyrirlestur.

Unga fólkið er framtíðin og þessi hópur fyllti mig bjartsýni á framtíðina í eineltismálum.

Þau munu svo sannarlega gera það sem í þeirra valdi stendur til að vinna bug á einelti. Það vill engin sjá að það fái að þrífast eins og það gerir.

Ég vil að þið vitið að ég á eftir að hugsa til þessa unga fólks sem var með mér á mánudaginn 08.06.09 oft og mörgum sinnum, einfaldlega vegna þess að þau snertu við mér – þeirra einlægni, skilningur og samhugur umvafði mig þegar ég fór frá þeim. Þau voru yndisleg og það er akkúrat svona fólk sem nær fram jákvæðum breytingum.

Published in: on June 10, 2009 at 2:08 pm  Leave a Comment